Á skrítnum vetri er þó alltaf víst að jólin koma sama hvað og þess höfum við notið vel með börnunum okkar á Sólborg.
Börn á öllum kjörnum hafa unað sér vel við að syngja jólalög, telja niður aðventuna og föndra jólagjafir og skraut fyrir foreldra sína. Við höfum notið góðs af öllum í kringum okkur en frábæra foreldrafélagið okkar kannast við jólasveinana og fengu tvo eldhressa til okkar sem komu færandi hendi inn á hvern kjarna fyrir sig, börnunum til mikillar gleði.
Eins birtust jólaálfar frá Suðurnesjabæ hjá okkur í desember og kættu barnahópinn og elstu börn fengu til sín jólaleikritið Jól í tösku í boði leikskólans.
Síðast en ekki síst þá litu þær Margrét Pála og Laufey Sigurðardóttir fiðluleikari hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands litu einnig í heimsókn til okkar i síðustu viku, gengu á milli kjarna og tóku að sjálfsögðu jólasöngfund með öllum börnum leikskólans. Það er alltaf svo hátíðlegt að fá þær í hús með dásamlega tóna, gleði í hjarta og jólastemninguna með sér.
Það hefur því ekki verið neinn skortur á jólagleði hjá litlum fjörkálfum á Sólborg.