Innskráning í Karellen
news

Vorið og sumarið á Sólborg

05. 07. 2021

Vorið og sumarið hefur verið okkur ljúft hér á Sólborg. Það er gott að frá birtu og yl eftir veturinn og við erum búin að nýta okkur góðviðrið til að vera mikið úti við, fara í styttri og lengri gönguferðir og njóta þess að geta verið í fljót í útifötin.

Elstu börnin fóru í útskriftarferð í Vatnaskóg í maí. Þau fóru af stað snemma morguns með rútu og áttu dásamlegan dag í Vatnaskógi þar sem þau fóru í skógarferð, fóru á báta, fengu pizzuveislu í hádeginu, fóru í bátsferð, á íþróttasvæði og í hoppukastala. Þau komu svo heim samdægurs eftir frábæran dag í Hvalfirðinum.

Foreldrafélagið okkar hélt sumarhátíð fyrir okkur þriðjudaginn 8. júní. Hátíðin hófst með Lalla töframanni sem gladdi okkur með skemmtiatriðum. Svo fengu öll börn pylsur, svala og andlitsmálningu og að lokum fengu börnin að hoppa í hoppukastölum. Foreldrafélagið gaf svo öllum börnum sumarleikföng að gjöf. Þetta var dásemdarhátíð og við þökkum okkar frábæra foreldrafélagi fyrir að gleðja okkur.

Útskriftarathöfn fyrir elstu börnin okkar fór fram í Sandgerðisskóla fimmtudaginn 10. júní. Börnin buðu foreldrum sínum á athöfnina og voru búin að undirbúa dans- og söngatriði og stóðu sig með stakri prýði. Þau fengu svo bakpoka með möppunni sinni, kærleikstein fullan af góðum hugsunum frá vinkonum og vinum á Sólborg og rós og voru formlega útskrifuð af sínum hópstjórum. Að athöfn lokinni, var boðið uppá ís, kaffi og konfekt. Gangi ykkur sem allra best í grunnskólanum elsku vinkonur og vinir og takk fyrir samveruna á Sólborg. Þið eruð frábær!

Við erum svo heppin að fá til okkar hóp af flottum unglingum í sumarvinnu á vegum vinnuskólans. Þau byrjuðu um leið og skóla lauk í vor og eru með okkur fram að sumarlokun. Þau eru búin að standa sig afar vel og við þökkum þeim innilega fyrir frábæra samvinnu.

Þriðjudagurinn 6. júlí er síðasti dagurinn okkar fyrir sumarlokun.Við þökkum kærlega fyrir þetta sérstaka skólaár, með hjálp foreldra leystum við þau verkefni sem heimsfaraldurinn færði okkur og það var einstakt að finna skilning, góðvild og hlýhug frá fjölskyldum í þessum undarlegu aðstæðum.

Skólinn opnar aftur fimmtudaginn 12. ágúst, við hlökkum til að hitta ykkur að fríi loknu.Hafið það sem allra best.

© 2016 - Karellen